Haukadalsvöllur opnaði í júlí 2006. Völlurinn er staðsettur nærri hverasvæðinu í Haukadal og má stundum sjá Strokk og Geysir blása úr sér á meðan spili stendur. Haukadalsvöllur er 9 holur og ber hver hola nafn einhvers af þeim hverum sem finnast á hverasvæðinu. Haukadalsvöllur er mjög skemmtilegur, krefjandi og fallegur golfvöllur er liggur í mjög fallegu umhverfi. Þegar staðið er á fyrsta teig, lætur völlurinn lítið yfir sér og ættu kylfingar ekki að láta það plata sig. Strax á annarri holu kemur fallegt umhverfið í ljós og síðan þegar komið er að annarri flöt þá opnast glæsilegt svæði þar sem Almenningsá spilar stórt hlutverk í golfleiknum. Við hönnum vallarins var tekið tillit til náttúrunnar og umhverfisins og er lega vallarins eins líkust umhverfinu og það var áður en framkvæmdir hófust.
Tvær ár, Beiná og Almenningsá, koma við sögu á vellinum og þurfa kylfingar að glíma við aðra þeirra á hverri einustu braut. Á fyrstu braut rennur Beiná þó aðeins rétt framan við gula teiginn og ættu flestir kylfingar því ekki að eiga í teljandi vandræðum með að „hanga þurrir“ á upphafsholunni. Völlurinn er einkar krefjandi, ekki aðeins vegna ánna, heldur einnig vegna lynggróðurs og birkikjarrs sem einkennir svæðið. Á Haukadalsvelli kemst kylfingurinn ekki upp með annað en góðan golfleik frá upphafi til enda.
Völlurinn er 5812 m á gulum teigum, par 74 sem er einstakt á Íslandi.
– Sjá nánar upplýsingar á vefsíðu golfvallarins: www.geysirgolf.is