Lögð er áhersla á íslenskt eldhús og fersk hráefni beint frá býli. Í hádeginu (frá 11.30 – 14.30) er alltaf í boði heitur matur og þar má meðal annars finna ferskan fisk dagsins, ljúffengt lamb, brakandi purusteik og plokkfisk borinn fram með hverabrauði Geysis. Ávallt eru þrjár tegundir af súpu í boði, kjötsúpa, fiskisúpa og vegan grænmetissúpa bornar fram með nýbökuðu brauði. Einnig er hægt að fá heimagerðar samlokur, pizzur, panini, bökur og margt fleira. Glæsilegt úrval er af kökum ásamt nýmöluðu kaffi. Sigurður Greipsson forfaðir fjölskyldunnar var mikill íþróttagarpur og frumkvöðull í íþróttaskólastarfi. Höfum við reynt að halda minningu hans og hans góða starfi á lofti og því er glímusýning hluti af veitingastaðnum. Meðal annars er til sýnis Grettisbeltið sem er merkasti og sögufrægasti gripur í gjörvallri íþróttasögu Íslands og einnig sá elsti en beltið hefur verið geymt í bankahólfi þar til það kom hingað á Geysi Glímu.