Við hönnum vallarins var tekið tillit til náttúrunnar og umhverfisins og er lega vallarins eins líkust umhverfinu og það var áður en framkvæmdir hófust. Tvær ár, Beiná og Almenningsá, koma við sögu á vellinum og þurfa kylfingar að glíma við aðra þeirra á hverri einustu braut.
Á fyrstu braut rennur Beiná þó aðeins rétt framan við gula teiginn og ættu flestir kylfingar því ekki að eiga í teljandi vandræðum með að „hanga þurrir“ á upphafsholunni. Á Haukadalsvelli kemst kylfingurinn ekki upp með annað en góðan golfleik frá upphafi til enda. Völlurinn er 5812 m á gulum teigum, par 74 sem er einstakt á Íslandi.